Landsdómur sýknaði í dag Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, af þremur ákæruatriðum af fjórum. Geir var sakfelldur fyrir eitt ákæruatriðið. Honum er ekki gerð refsing í málinu.
Geir var ákærður fyrir fjögur tiltekin ákæruatriði sem varða störf hans sem forsætisráðherra á tímabilinu febrúar 2008 til byrjun október sama ár. Í fyrsta lagi að hafa vanrækt að fylgjast með að störf starfshóps um fjármálastöðugleika væru nægjanlega markviss. Í öðru lagi að hafa ekki átt frumkvæði að því að bankakerfið yrði minnkað. Í þriðja lagi að fullvissa sig ekki um að unnið væri að því að færa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag. Í fjórða lagi að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Það atriði sem Geir er dæmdur fyrir er síðasta atriði ákærunnar, að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.
Fimmtán dómarar sitja í Landsdómi. Níu dómarar mynda meirihluta í málinu, en þeir eru Markús Sigurbjörnsson, Brynhildur Flóvenz, Eggert Óskarsson, Eiríkur Tómasson, Hlöðver Kjartansson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Viðar Már Matthíasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Fimm dómarar, Ástríður Grímsdóttir, Benedikt Bogason, Fannar Jónasson, Garðar Gíslason og Linda Rós Mikaelsdóttir, skiluðu sératkvæði. Þau töldu að sýkna ætti Geir af öllum ákæruatriðum, en færðu fyrir því ekki sömu rök og hinir dómararnir.
Sigrún Magnúsdóttir lýsti sig í sératkvæði sammála forsendu meirihlutans um forsendur og niðurstöður fyrstu þriggja ákæruliðanna, en sammála minnihlutanum um síðasta ákæruliðinn. Hún vildi því einnig að Geir yrði sýknaður af öllum ákærum.
Samkvæmt dómnum er allur sakarkostnaður í málinu greiddur úr ríkissjóði, þar með talinn málsvarnarlaun verjanda Geirs.
Dómurinn er 415 blaðsíður þar sem farið er í gegnum ákæruatriðin, yfirheyrslur, málsskjöl og rök saksóknara og verjanda.