Sakfelldur fyrir eitt ákæruatriði

Andri Árnason verjandi og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Andri Árnason verjandi og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lands­dóm­ur sýknaði í dag Geir H. Haar­de, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, af þrem­ur ákæru­atriðum af fjór­um. Geir var sak­felld­ur fyr­ir eitt ákæru­atriðið. Hon­um er ekki gerð refs­ing í mál­inu.

Geir var ákærður fyr­ir fjög­ur til­tek­in ákæru­atriði sem varða störf hans sem for­sæt­is­ráðherra á tíma­bil­inu fe­brú­ar 2008 til byrj­un októ­ber sama ár. Í fyrsta lagi að hafa van­rækt að fylgj­ast með að störf starfs­hóps um fjár­mála­stöðug­leika væru nægj­an­lega mark­viss. Í öðru lagi að hafa ekki átt frum­kvæði að því að banka­kerfið yrði minnkað. Í þriðja lagi að full­vissa sig ekki um að unnið væri að því að færa Ices­a­ve-reikn­inga Lands­bank­ans í Bretlandi yfir í dótt­ur­fé­lag. Í fjórða lagi að hafa ekki haldið ráðherra­fundi um mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni.

Það atriði sem Geir er dæmd­ur fyr­ir er síðasta atriði ákær­unn­ar, að hafa ekki haldið ráðherra­fundi um mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni.

Fimmtán dóm­ar­ar sitja í Lands­dómi. Níu dóm­ar­ar mynda meiri­hluta í mál­inu, en þeir eru Markús Sig­ur­björns­son, Bryn­hild­ur Flóvenz, Eggert Óskars­son, Ei­rík­ur Tóm­as­son, Hlöðver Kjart­ans­son, Ingi­björg Bene­dikts­dótt­ir, Magnús Reyn­ir Guðmunds­son, Viðar Már Matth­ías­son og Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son.

Fimm dóm­ar­ar, Ástríður Gríms­dótt­ir, Bene­dikt Boga­son, Fann­ar Jónas­son, Garðar Gísla­son og Linda Rós Mika­els­dótt­ir, skiluðu sér­at­kvæði. Þau töldu að sýkna ætti Geir af öll­um ákæru­atriðum, en færðu fyr­ir því ekki sömu rök og hinir dóm­ar­arn­ir.

Sigrún Magnús­dótt­ir lýsti sig í sér­at­kvæði sam­mála for­sendu meiri­hlut­ans um for­send­ur og niður­stöður fyrstu þriggja ákæru­liðanna, en sam­mála minni­hlut­an­um um síðasta ákæru­liðinn. Hún vildi því einnig að Geir yrði sýknaður af öll­um ákær­um.

Sam­kvæmt dómn­um er all­ur sak­ar­kostnaður í mál­inu greidd­ur úr rík­is­sjóði, þar með tal­inn mál­svarn­ar­laun verj­anda Geirs.

Dóm­ur­inn er 415 blaðsíður þar sem farið er í gegn­um ákæru­atriðin, yf­ir­heyrsl­ur, máls­skjöl og rök sak­sókn­ara og verj­anda.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert