„Það er í sjálfu sér býsna alvarlegt, það sem ákærði er sakfelldur fyrir,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari í málinu gegn Geir H. Haarde. „Ég leyfi mér að vísa í rökstuðninginn í dómnum, þar sem farið er yfir sviðið og hversu afdrifaríkt það var að halda ekki fundi um þessa miklu hættu sem vofði yfir.“
„Það var sýknað af þeim efnisatriðum sem lagt var upp með af hálfu þeirra sem ákærðu í málinu. Það eru nokkur ljón í veginum og okkur var ljóst að það var á brattann að sækja. En niðurstaðan liggur fyrir; að það hafi ekki verið nægilega sýnt fram á að það sem til þurfti til að sakfella fyrir þá liði og það þýðir svosem ekkert að deila við dómarana.
Sérstakt og fordæmalaust mál
Kom dómurinn þér á óvart? „Maður vissi svo sem ekki við hverju mátti búast. Þetta var eitthvað sem alveg eins var búist við, rétt eins og ef það hefði verið sakfellt fyrir eitthvað meira. Það var erfitt að átta sig á því hver niðurstaðan yrði. Þetta er auðvitað svo sérstakt og fordæmalaust mál."
„En ég er að lesa í gegnum þetta og fá tilfinningu fyrir niðurstöðunum og átta mig á því sem verið er að segja varðandi það sem þó er sakfellt fyrir. Það er áhugavert að fara yfir það,“ segir Sigríður.
Ósátt við að varakrafan sé sögð órökstudd
Að mati Sigríðar er dómurinn skýr. „Það er gerð skýr grein fyrir því með röksemdum meirihlutans. Það eina sem ég er ósátt við eru röksemdir um að varakrafan hafi ekkert verið rökstudd, en ég er ekki sammála því. Ég tel að vel hafi verið gerð grein fyrir því í lýsingu ákæruefnanna. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þeir hefðu viljað fá, en áherslan var á þessum ráðherraábyrgðarlögum og málið var fyrst og fremst reist á þeim grunni. “