Fréttir af niðurstöðu Landsdóms vegna ákæranna á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, voru skjótar að skila sér út í heimspressuna í dag en á meðal þeirra fjölmiðlamanna sem viðstaddir voru dómsuppkvaðninguna í Þjóðmenningarhúsinu í dag voru fulltrúar nokkurra erlendra fjölmiðla.
Efnislega eru umfjallanir erlendu miðlanna mjög með sama móti sem skiljanlegt er. Breskir fjölmiðlar rifja hins vegar frekar upp tengsl Landsdómsmálsins við Icesave-málið og hagsmuni breskra stjórnvalda í tengslum við það. Erlendu miðlarnir virðast þó frekar leggja áherslu á þann eina ákærulið sem Geir var sakfelldur fyrir en þá þrjá sem hann var sýknaður af.
Breska dagblaðið Guardian rifjar upp á fréttasíðu sinni, samhliða umfjöllun um niðurstöðu Landsdóms um að sýkna Geir af öllum ákæruliðum utan þann að funda ekki með ráðherrum um efnahagskrísuna, að Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Breta, hafi sakað Geir um óviðunandi og ólöglega framkomu fyrir að bæta ekki breskar innistæður á Icesave-reikningum.
Breska viðskiptablaðið Financial Times fjallar meðal annars um niðurstöðu Landsdóms og ræðir við Þór Saari, þingmann Hreyfingarinnar, og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þór segir niðurstöðuna áfellisdóm fyrir íslenskar ríkisstjórnir en Stefán segir að hún gæti komið sér illa fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Reuters-fréttaveitan segir að margir Íslendingar telji að ekki hafi átt að ákæra Geir einan og ræðir við Árna Einarsson, eftirlaunaþega, sem bendir á að þó Geir hafi vissulega verið skipstjórinn í ríkisstjórn sinni hafi fleiri verið í ríkisstjórninni en hann.
Einnig ræðir Reuters við Eirík Bergmann Einarsson stjórnmálafræðing sem segir niðurstöðu Landsdóms fara meðalveginn til þess að róa bæði þá sem vildu fá Geir dæmdan og þá sem vildu hann sýknaðan.