Landsdómi ekki beitt í hefndarskyni

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fram kom í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á fjölmennum fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll í dag að hann vonaðist til þess að pólitísk réttarhöld eins og þau sem hann hefði þurft að ganga í gegnum fyrir Landsdómi yrðu aldrei endurtekin hér á landi.

Tók Geir undir orð formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, í bréfi til flokksmanna í gær þar sem fram kom að sjálfstæðismenn myndu ekki nota ákærur fyrir Landsdómi til þess að koma fram hefndum á pólitískum andstæðingum sínum. Jafnvel þó að það væri fullt tilefni til þess bætti hann við.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Geir hvort hann teldi að afnema ætti lög um Landsdóm og sagðist Geir vera þeirrar skoðunar. Hann teldi að ef ráðherrar væru taldir hafa framið lögbrot ætti einfaldlega að stefna þeim fyrir venjulega dómstóla eins og öðrum.

Hann sagði ennfremur að á hinn bóginn ætti að útkljá pólitísk ágreiningsefni í kjörklefanum en ekki með því að draga pólitíska andstæðinga fyrir dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert