„Við þurfum nýjan Landspítala, um það verður ekki deilt [...] Óbreytt ástand rekstursins í gömlum og ófullnægjandi húsakosti sem er tvístraður út um allar koppagrundir er okkur aftur á móti fjötur um fót og ógnar stöðu okkar og markmiðum um framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, öryggi og gæði,“ sagði Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu, sem mætti fyrir hönd ráðherra á ársfundi Landspítalans í dag.
Hún sagði að mikið hefði verið rætt um meintan „stjarnfræðilegan kostnað“ við byggingu nýs Landspítala og margir hefðu spurt hvort ekki væri nær að hlúa að rekstrinum í núverandi húsnæði og sinna viðhaldi og tækjakaupum í staðinn fyrir „að henda peningum í steypu á krepputímum undir fjársveltan rekstur“ sem þarf að gjalda fyrir framkvæmdirnar.
Auðvelt væri að svara gagnrýninni en það kæmi fólki alltaf jafn mikið á óvart þegar því væri gerð grein fyrir kostnaði áformaðra framkvæmda í samhengi við rekstrarkostnað sjúkrahússins. „Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 45 milljarðar króna. Samkvæmt fjárlögum þessa árs kostar rekstur Landspítala árið 2012 39 milljarða króna. Framkvæmdirnar fela í sér einskiptiskostnað, eins og sagt er á vondu máli, og í þessu samhengi má segja að kostnaðurinn sé lítill miðað við ávinninginn sem er margvíslegur, hvort sem litið er til hagræðis í rekstri, öryggis sjúklinga, gæða þjónustunnar, starfsumhverfisins og þar með fýsileika þess að starfa á sjúkrahúsinu. Við megum ekki gleyma því að Landspítali er háskólasjúkrahús og gegnir þýðingarmiklu hlutverki í menntun heilbrigðisstarfsfólks okkar sem við höfum svo mikla þörf fyrir og megum ekki missa frá okkur.“