Ódýrari getnaðarvarnir ofarlega í huga

Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna á meðal borgarfulltrúa.
Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna á meðal borgarfulltrúa. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ungmenni í Reykjavík vilja ódýrari getnaðarvarnir, skyndihjálparkennslu í grunnskólum og átak í lífsleiknikennslu. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

„Við viljum lægra verð á getnaðarvörnum, þær eru allt of dýrar og á ekki að flokka sem lúxusvöru,“ sagði Marín Eydal Sigurðardóttir frá Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis þegar hún mælti fyrir tillögu um ódýrari getnaðarvarnir fyrir ungt fólk. „Eins og staðan er nú taka ungmenni frekar áhættu á að fá kynsjúkdóm en að borga fyrir vöruna,“ sagði hún en fjallað er um málið á vefsvæði Reykjavíkurborgar.

Fundir borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna hafa verið haldnir árlega í rúman áratug. Markmiðið er að gera fólki undir 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við borgaryfirvöld og veita þeim þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Meðal þess sem ungmennin lögðu til á fundinum var að ráðist yrði í herferð gegn veggjakroti og samgöngur í Grafarvogi yrðu endurbættar. Þá óskaði ungmennaráð ungra innflytjenda eftir aðgerðum til að auðvelda unglingum af erlendum uppruna að fá vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert