Skattgreiðendur verði ekki blekktir

Pétur H. Blöndal, alþingismaður.
Pétur H. Blöndal, alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Ég vil að skatt­greiðand­inn viti hvað bíði hans,“ sagði Pét­ur H. Blön­dal, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, á Alþingi í kvöld um heim­ild til fjár­mögn­un­ar Vaðlaheiðarganga en fyrsta umræða um málið fer nú fram í þing­inu. Fjár­málaráðherra, Odd­ný G. Harðardótt­ir, mælti fyr­ir frum­varp­inu fyrr í dag og hafa þing­menn rætt það síðan.

Um­rædd heim­ild geng­ur út á að stjórn­völd geti lánað þá fjár­muni sem þarf til þess að byggja göng­in, um 8,7 millj­arða króna, sem síðan verði greidd­ir til baka á kom­andi árum í gegn­um veg­gjöld. Deilt hef­ur verið mjög um það hvort göng­in geti staðið und­ir sér með þeim hætti. Þá hef­ur verið gagn­rýnt harðlega að ekki geti tal­ist um einkafram­kvæmd að ræða ef ríkið þarf að fjár­magna hana og taka á sig þá áhættu sem því fylgi.

Göng­in voru tek­in út af sam­göngu­áætlun á sín­um tíma svo flýta mætti fyr­ir bygg­ingu þeirra gegn því að um einkafram­kvæmd yrði að ræða sem stæði und­ir sér.

Pét­ur sagðist alls ekk­ert hafa á móti Vaðlaheiðargöng­um sem slík­um ef sýnt væri fram á að þau gætu staðið und­ir sér. Hann væri hins veg­ar á móti því að farið væri út í þá fram­kvæmd þannig að skatt­greiðend­ur væru blekkt­ir.

Guðfríður Lilja Grét­ars­dótt­ir, formaður um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar Alþing­is, gagn­rýndi frum­varpið harðlega í ræðustól Alþing­is og sagði meðal ann­ars ljóst að bygg­ing Vaðlaheiðar myndi koma niður á fjár­mög­un annarra brýnni sam­göngu­verk­efna. Þá gagn­rýndi hún einnig þá áhættu sem ríkið tæki á sig með því að fjár­magna fram­kvæmd­ina.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert