„Þegar Íslendingar eiga í erfiðum deilum skiptir mestu fyrir þá að halda „kúlinu“,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í svari við fyrirspurn um makríldeiluna og reglugerð sem er í undirbúningi til að hægt sé að bregðast við veiðum án samkomulags.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði ráðherra út í reglugerðina sem stendur til að setja til að refsa þeim ríkjum sem veiða makríl utan kvóta. Hún sagði hann áður hafa talað léttvægt um málið og spurði hvort hann væri þeirrar skoðunar að þetta nái ekki fram að ganga.
Össur sagði Ragnheiði rugla saman tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og svo tillögu þingmanna í sjávarútvegsráði ESB sem telja tillögu framkvæmdastjórnarinnar bitlausa og vilja ganga lengra. Jafnvel svo langt að banna megi löndum á öllum afla hjá viðkomandi þjóðum. Hann sagði að sú tillaga muni fara í millum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar og hann telji að endanleg niðurstaða verði töluvert frábrugðin.