Samþykkt var í kvöld á Alþingi að vísa frumvarpi um heimild til stjórnvalda til þess að fjármagna Vaðlaheiðargöng til annarrar umræðu og verður það tekið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins í millitíðinni.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld gengur umrædd heimild út á að stjórnvöld geti fjármagnað byggingu Vaðlaheiðarganga fyrir um 8,7 milljarða króna sem síðan verði greiddir til baka á komandi árum í gegnum veggjöld.
Deilt hefur verið mjög um það hvort göngin geti staðið undir sér með þeim hætti. Þá hefur verið gagnrýnt harðlega að ekki geti talist um einkaframkvæmd að ræða ef ríkið þarf að fjármagna hana og taka á sig þá áhættu sem því fylgi.
Göngin voru tekin út af samgönguáætlun á sínum tíma svo flýta mætti fyrir byggingu þeirra gegn því að um einkaframkvæmd yrði að ræða sem stæði undir sér.