Ekki í höndum Samfylkingarinnar

„Mín krafa hefur verið sú að þessi umsókn sé komin á leiðarenda og að það eigi að afturkalla hana. Alþingi eitt getur stigið slíkt skref,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, sem telur það nýja markmið Samfylkingar að hafa hluta samningsatriðanna við ESB á hreinu fyrir næstu kosningar ekki ganga nógu langt. „Samfylkingin ræður litlu um þá ferð. Evrópusambandið ræður eitt þeirri ferð,“ segir Jón. 

„Það er alveg ljóst að VG hefur afdráttarlaust lýst fram eindreginni andstöðu við Evrópusambandsaðild. Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni að VG myndi ekki sækja um aðild. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir flokkinn að fara aftur í kosningabaráttu með umsóknina opna. Öllum má vera það ljóst.“

Kosningar um haust myndu engu breyta

- Mínar heimildir herma að einn flokksbróðir þinn, þ.e.a.s. ráðherra, hafi látið þau orð falla að afgreiða þyrfti sem flest mál á vorþinginu svo þau væru úr vegi ef stjórnarsamstarfið riðaði til falls í haust vegna Evrópumálanna. Er þetta rétt?

„Það er sama hvenær kosningarnar verða. VG getur ekki farið með umsóknina um aðild að Evrópusambandinu opna í næstu kosningar. Ef umsókin er opin eins og hún er núna að þá skiptir engu þótt kosningar verði fyrr. Það yrði jafn slæmt fyrir VG. Þess vegna er það mitt mat - og ég hef sagt það - að VG eigi að taka frumkvæðið í því að stöðva þessa umsókn.

Það yrði erfitt fyrir ýmsa þingmenn VG að verja þá öfugsnúnu stöðu að lýsa sig andvíga aðild að ESB en vinna á sama tíma að umsókninni. Það getur ekki farið saman. Þetta er spurning um trúverðugleika.

Það hefði mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir fylgi flokksins ef Evrópumálin færu inn í næstu kosningar í óbreyttri mynd. Þetta er einn af hornsteinum VG og til þess var flokkurinn meðal annars stofnaður, að standa vörð um sjálfstæði landsins og andstöðu við aðild að Evrópusambandinu. Flokkurinn getur engan veginn vænst þess að fá sömu útkomu og í þingkosningunum 2009, ef Evrópumálin verða enn þá opin,“ segir Jón Bjarnason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert