Landhelgisgæslan tók í dag þátt í björgunaræfingu í samstarfi við Norðmenn þar sem settar voru á svið þær aðstæður að eldgos hefði átt sér stað í eldfjallinu Beerenberg á Jan Mayen og flytja þyrfti á brott þá einstaklinga sem þar hafa búsetu, en fjallað er virk eldstöð.
„Þetta snerist sem sagt um það að koma á brott því fólki sem þarna er, 25 manns, og að þessu unnum við með norsku björgunarmiðstöðvunum. Megnið af þessu fór fram sem leikur. Við sendum ekki skip, flugvélar eða þyrlur á staðinn. Norðmennirnir voru hins vegar með eitthvað á svæðinu,“ segir Hjalti Sæmundsson, aðalvarðstjóri hjá Landhelgisgæslunni.
Hann segir að æfingar sem þessi fari fram annað slagið á milli björgunarmiðstöðvanna og á milli Íslands og Noregs. Æfingin að þessu sinni hafi staðið yfir frá því snemma í morgun og þar til á milli klukkan tvö og þrjú en eitthvað aðeins lengur hjá Norðmönnunum.
Aðspurður segir Hjalti að æfingin hafi gengið vel. „Við teljum að öllum hafi verið bjargað.“ Hann segir að nákvæmlega þessi æfing hafi ekki verið framkvæmd áður en þetta sé í áttina að því sem Norðurheimskautsráðið sé að fjalla um á sínum vettvangi. Það er að taka á atvikum sem kunna að koma upp á fjarlægum slóðum á heimskautasvæðinu.
„Við erum þarna komnir ansi langt norður fyrir heimskautsbaug. Sem dæmi má nefna að það er þriggja og hálfs tíma flug fyrir þyrlu að fara frá Íslandi til Jan Mayen. Þetta eru miklar vegarlengdir,“ segir Hjalti. Engu að síður sé talið að það megi koma fólki til bjargar á eyjunni með þyrlu frá Íslandi.
Hann segir að tekið hafi verið inn í myndina allt sem Landhelgisgæslan búi yfir og þar á meðal þær tvær þyrlur sem hún hafi til umráða í dag. Einnig flugvél Gæslunnar TF-Sif og varðskipið Ægi. Þá hafi danska varðskipið Hvidbjørnen komið við sögu sem hefur verið í Reykjavíkurhöfn.
„Þetta eru allt saman verkfæri og síðan einnig skip sem eru í grennd við eyjuna. Það má ekkert vera nær en sólarhringssiglingu eða meira. Þannig að ef fjallið þarna bærir einhvern tímann á sér og það þarf að flytja þetta fólk sem býr í eyjunni þá þyrfti eitthvað svona að koma til,“ segir Hjalti.