„Er ekki þingmeirihluti í landinu?“

Frá fundi Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins.
Frá fundi Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Er ekki starfandi þingmeirihluti í þessu landi,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var á fundi Samtaka iðnaðarins spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn styddi tillögu um Vaðalheiðargöng sem nú er til meðferðar Alþingis.

Bjarni sagði að þingnefnd ætti eftir að fara yfir þetta mál og umræðan væri því ekki tæmd. Hann sagðist vera gagnrýninn á fjármögnun framkvæmdanna. Hún fælist í því að ríkið stofnaði félag og lánaði til þess peninga og ábyrgðist fjármögnun en samt væru menn að kalla þetta einkaframkvæmd. Hann spurði af hverju kæmu ekki peningar frá einkaframtakinu ef það væri rétt sem stuðningsmenn framkvæmdanna segðu að verkefnið væri svona gott.

Bjarni tók fram að hann vildi gjarnan að hægt væri að ráðast í Vaðlaheiðargöng, en hann léti ekki stilla sér upp við vegg og minnti á að það væri ríkisstjórn í landinu sem teldi sig hafa þingmeirihluta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það ætti eftir að koma í ljós hvort samstaða yrði innan Framsóknarflokksins um afstöðu til málsins. Hann sagði að þegar rætt var um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi árið 2009 og 2010 hefðu allir verið sammála um að það væri mikilvægari framkvæmd en Vaðlaheiðargöng og fráleitt væri að taka göngin fram yfir tvöföldun Suðurlandsvegar. Nú væri búið að leggja þessa framkvæmd til hliðar en þrýst væri á að fara í Vaðlaheiðargöng á undan öðrum mikilvægum vegaframkvæmdum.

Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, gangrýndi málflutning þeirra sem væru að reyna að stöðva þetta mál. Hann sagði að upphaflega hefði verið reiknað með að þetta mál þyrfti ekki að fara í gegnum þingið. Það hefði ekki komið upp fyrr en í desember. „Vonandi gengur þetta eftir, en ég er ekki allt of viss,“ sagði Kristján.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir að hvetja til fjárfestinga og skamma ríkisstjórnina fyrir að standa sig illa í þeim málum, en koma sér síðan undan því að svara því hvernig ætti að fjármagna þessar framkvæmdir.

Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnin hefði árið 2009 staðið frammi fyrir greiðsluþroti ríkissjóðs. Það hefði þurft að taka stór lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar og í tengslum við þá lánveitingu hefði ríkinu verið skipaður tilsjónarmaður. Hann sagðist vænta þess að stjórnendur í atvinnulífinu hefðu skilning á því að við slíkar aðstæður hefði ríkið ekki mikla peninga til að setja í framkvæmdir og yrði að skera niður útgjöld. Nú væru hins vegar að skapast aðstæður til að sækja fram á ný.

„Gríska leiðin“

Á fundi Samtaka iðnaðarins var einnig fjallað um fjármögnun byggingu nýs Landspítala. Sigurður Ingi talaði um „grísku leiðina“ í þessu sambandi. Hann sagðist hafa miklar efasemdir um fjármögnun verkefnisins. Hann sagðist líka óttast að verkefnið væri það stórt að íslenskir verktakar réðu ekki við það.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði að stjórnarandstaðan hvetti til fjárfestinga og daðraði við einkaframkvæmd án þess að svara því skýrt hvort hún væri tilbúin til að fara þessa leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert