Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um landið síðastliðinn mánudag.
Matarkarfan var ódýrust í Bónus á 20.404 kr. en dýrust í Nóatúni á 24.680 kr. sem er 4.276 kr. verðmunur eða 21%. Matarkarfan í Samkaupum-Úrvali var næst dýrust eða á 24.658 kr. eða 22 kr. ódýrari en karfan í Nóatúni
Nóatún og Samkaup-Úrval 21% dýrari en Bónus
Fjarðarkaup var með næst ódýrustu matarkörfuna en hún kostaði 22.058 kr. sem er 8% dýrari en hjá Bónus. Lítill verðmunur er á milli Fjarðarkaupa, Krónunnar og Nettós eða aðeins 3%. Matarkarfan hjá Krónunni er 221 kr. dýrari en hjá Fjarðarkaupum og hjá Nettó er karfan 405 kr. dýrari en hjá Krónunni.
Eins og fyrr segir var matarkarfan dýrust í Nóatúni á 24.680 kr. og næst dýrust í Samkaupum-Úrvali á 24.658 kr. en báðar eru þær 21% dýrari en karfan í Bónus. Matarkarfan kostaði 24.144 kr. í Hagkaupum sem er 18% meira en í Bónus, segir í tilkynningu frá ASÍ
Verðmunurinn mestur á bönunum
Af einstaka vörum í körfunni var mestur verðmunur á bönunum sem voru dýrastir á 379 kr./kg. í Hagkaup en ódýrastir á 129 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn var 250 kr. eða 194%. Mikill verðmunur var einnig á ódýrustu fáanlegu pastaskrúfunum sem voru dýrastar á 518 kr./kg. í Nóatúni en ódýrastar á 195 kr./kg. í Bónus, sem gerir 166% verðmun.
Enginn verðmunur var á nýmjólk í könnuninni sem kostaði 115 kr./l. í öllum verslunum. Af öðrum vörum í könnuninni má nefna sem dæmi heilsutvennu frá Lýsi 32 daga skammt sem var dýrastur á 1.098 kr. í Samkaupum-Úrvali en ódýrastur á 793 kr. í Bónus verðmunurinn var 305 kr. eða 38%. Gerber sveskjumauk nr.1 var dýrast á 169 kr. í Nóatúni en ódýrast á 139 kr. í Bónus, verðmunurinn var 30 kr. eða 22%. Burger spelt hrökkbrauð var ódýrast á 179 kr. í Bónus og dýrast á 209 kr. í Hagkaup verðmunurinn var 30 kr. eða 17%.
.