Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, segir augljóst að vekja þurfi athygli á að verið sé að hafa umsamda frídaga af vinnandi fólki þegar opið sé í verslunum á dögum eins og 1. maí. Almennt komi þetta verst niður á fólki sem starfi við verslun og þjónustu jafnvel á sjálfum frídegi verslunarmanna.
Stefán Einar skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem vakin er athygli á því að verslunarfólk í Kringunni og Smáralind þurfi að vinna á 1. maí baráttudegi verkalýðsins sem er á næstkomandi þriðjudag en hann segist hafa fengið mikil viðbrögð við greininni. Forsvarsmenn verslunarmiðstöðvanna gera ekki ráð fyrir því að bregðast sérstaklega við áskoruninni enda sé verslun mikil á slíkum dögum. Í Kringlunni ráða verslunareigendur því hvort opið sé eða lokað en í Smáralind er gert ráð fyrir því að hafa allar verslanir opnar.