„Ég hlustaði á umræður um Vaðlaheiðargöng í gærkvöldi og ég verð að segja að gubbupestin versnaði þegar ég hlustaði á sumar ræður sem þar voru fluttar.“ Þetta sagði Kristján Möller, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, á fundi hjá Samtökum iðnaðarins í morgun.
Kristján sagði að hann hefði verið að standa upp úr gubbupest sem hefði hrjáð hann í vikunni. Í gærkvöldi hefði hann setið heima og fylgst með umræðum á Alþingi um Vaðlaheiðargöng, en fyrstu umræðu um málið lauk í gærkvöldi.
Kristján hefur beitt sér fyrir því að ráðist verði í Vaðlaheiðargöng. Hann fór hörðum orðum um málflutning andstæðinga ganganna. „Eftir að hafa hlustað á „ótrúlega málafylgju andstæðinga ganganna“ sagðist hann ekki viss um að ráðist verði í framkvæmdir við göngin.
Kristján ræddi um nokkur verkefni sem rætt hefði verið um að ráðast í með þátttöku lífeyrissjóðanna. Hann sagði að það hefði verið rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að hafna tilboði lífeyrissjóðanna að fjármagna framkvæmdir á Suðvesturlandi. Sjóðirnir hefðu krafist 3,9% ávöxtunar og álags sem hefði skilað þeim 4,25% ávöxtun. Stjórnvöld hefðu viljað miða við skuldabréfaflokk á markaði sem í dag skilaði 2,68% ávöxtun.