„Það virðist vera til gríðarlega mikið af gulli,“ segir Sverrir Eiríksson gullkaupandi um gulleign landsmanna, en auglýsingar gullkaupenda hafa verið áberandi að undanförnu.
Magnús Steinþórsson gullsmíðameistari hefur í um þrjú ár auglýst reglulega að hann kaupi gull. Sverrir hefur vakið athygli á starfsemi sinni undanfarna tvo mánuði og P&H Jewellers höfðaði til gullseljenda í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í gær.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sverrir, að gull hafi safnast hjá fólki í áratugi og mikið framboð af gulli sé á Íslandi. „Fólk er greinilega að taka til í skúffum og skápum og vill athuga hvort þar felist verðmæti,“ segir hann. „Það er alveg lygilegt hvað er mikið til.“ Hann er líka með verslun í Bretlandi og segir að staðan sé eins þar.