Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins samþykkti á fundi sínum í gær tillögur um að Evrópusambandinu verði heimilað að grípa til refsiaðgerða gegn ríkjum utan sambandsins sem það telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar.
Um er að ræða reglugerðartillögu sem upphaflega kom frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og breytingatillögu við hana sem fram kom innan nefndarinnar en samkvæmt breytingartillögunni verður sambandinu ekki aðeins heimilað að banna útflutning sjávarafurða til ríkja þess úr fiskistofnum sem ekki eru til staðar samningar um heldur öllum sjávarafurðum. Þá er einnig meðal annars opnað á möguleikann á hafnbanni á skip frá ríkjum sem ekki eru talin stunda sjálfbærar veiðar.
Fram kemur í frétt Agence Europe í gær að umræddum refsiaðgerðum kunni að verða beitt í fyrsta skipti gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiða þjóðanna. Haft er eftir írska Evrópuþingmanninum Pat "the Cope" Gallagher, að tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi náð of skammt en hann bar fram áðurnefnda breytingatillögu. Í athugasemdum með breytingatillögunni segir meðal annars:
„Þessi lagasetning verður að veita Evrópusambandinu eins sterka heimild og hægt er til að grípa til eins hraðvirkra og umfangsmikilla aðgerða og mögulegt er sem ekki eru takmarkaðar við „sameiginlega veiðistofna“ eða „tengdar tegundir“.“
Viðræður verði þegar hafnar aftur
Gallagher, sem einnig er annar formanna sameiginlegrar þingmannanefndar Evrópuþingsins og Alþingis vegna umsóknar íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið, sagðist vona að aldrei þyrfti að koma til þess að refsiaðgerðunum þyrfti að beita og hvatti alla aðila makríldeilunnar til þess að hefja þegar á ný samningaviðræður um skiptingu makrílkvótans í Norðaustur-Atlantshafi.
Maria Damanaki, yfirmaður sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir á fréttavefnum Thefishsite.com í dag að samþykkt sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins sé mikilvægt skref í þá átt að tryggja sjálfbærar veiðar á makríl. Sagðist hún gera ráð fyrir því að Íslendingar kæmu aftur að samningaborðinu en ef ekki næðust samningar yrði refsiaðgerðunum beitt.
„Ef það nást ekki samningar bráðlega verða þessar aðgerðir settar í gang,“ sagði Damanaki.