Verslunarmenn á Suðurlandi skora á verslunarmenn á svæðinu að hafa verslanir sínar lokaðar hinn 1. maí. Dagurinn sé frídagur alls launafólks á Íslandi, einnig verslunarfólks.
Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Verslunarmannafélags Suðurlands, fyrr í kvöld.
Þar hvetur fundurinn neytendur til að sniðganga verslanir sem hafa opið þennan dag.
Ályktunin í heild:
„Aðalfundur Verslunarmannafélags Suðurlands, haldinn 25. apríl 2012 skorar á verslunarmenn á starfsvæði félagsins að hafa verslanir lokaðar 1. maí, baráttudag verkalýðsins. Dagurinn er frídagur alls launafólks á Íslandi og því á verslunarfólk að fá skilyrðislaust frí þennan dag eins og annað launafólk. Aðalfundurinn hvetur neytendur til að sniðganga verslanir sem hafa opið þennan dag.“