Össur lofar engu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Rax / Ragnar Axelsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kveðst ekki vilja lofa því að komin verði mynd á helstu samningskaflana í aðildarviðræðunum við ESB, þar með talið um sjávarútvegsmál, fyrir næstu kosningar en segir stefna í að allir kaflar verði opnir fyrir árslok. Flokksbróðir hans horfir til kosninga.

Þannig er haft eftir Björgvin G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingar og flokksbróður Össurar, í miðvikudagsblaði Morgunblaðsins að hann horfi nú til þess að meginlínurnar í samningaviðræðunum við ESB verði orðnar skýrar þegar gengið verður til þingkosninga næsta vor.

Mikilvæg yfirlýsing stækkunarstjórans

Össur segir góðar fréttir hafa borist af aðildarferlinu í síðustu viku.

„Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, gaf mjög mikilvæga yfirlýsingu í síðustu viku þegar hann sagði að hann teldi unnt að opna alla kafla fyrir lok þessa árs. Í því felst fyrirheit til Íslendinga að það dragist ekki úr hömlu að opna fiskveiðikaflann sem er ásamt gjaldmiðils- og landbúnaðarkaflanum það sem við töldum erfiðast og mikilvægast að geta sýnt útlínur.

Ég þori samt með engu móti að lofa því að það verði komin einhver mynd, t.d. á niðurstöðu í sjávarútvegi þegar kemur að næstu kosningum. En hinu get ég lofað að ef komi ekkert óvænt upp á okkar megin að þá verði samningsafstaða okkar algerlega skýr vel fyrir þann tíma,“ segir Össur og víkur að erfiðasta samningskaflanum.

Hagsmunirnir eru skýrir

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að viðræðurnar um sjávarútveginn verði erfiðastar og taka mestan tíma. Íslendingar munu hafa mjög fasta afstöðu í sjó. Þar eru okkar hagsmunir okkar skýrir og sérstaðan mjög eindregin sem við teljum rökstyðja mjög vel okkar afstöðu eða markmið. Þannig að ég get ekki fullyrt neitt um að það verði komin mynd á lyktir viðræðna milli okkar og þeirra Brussel-megin.“

Makríllinn að „þvælast fyrir“

- Er VG að gera kröfu um það núna, þegar þið ræðið þessi mál augliti til auglitis, að þessi mál verði farin að skýrast í grófum dráttum að ári?

„VG hefur frá upphafi lagt áherslu á að þessir þungu kaflar verði opnaðir til viðræðna sem fyrst og ég hef verið þeim algerlega sammála um það. Þetta eru mikilvægustu málin okkar og þess vegna hef ég sett þá kröfu fram mjög fast. Það hefur orðið töf á því að opna sjávarútvegskaflann. 

Fyrir því hefur verið ein augljós ástæða: Endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Henni er ekki lokið og ESB hefur þótt erfitt að byrja samninga á grundvelli stefnu sem á að breyta í marktækum atriðum á næsta ári. Hitt er heldur ekki hægt að útiloka að makríll sé farinn að þvælast fyrir þessu máli og þá vísa ég ekki síst til yfirlýsingar írska sjávarútvegsráðherrans á dögunum.

Það er alveg ljóst að frændur okkar Írar eru okkur mjög reiðir. Í því efni er auðvitað mikilvægt að forysta ESB hefur, rétt eins og við, sagt að þetta séu óskyld mál. En þetta hefur valdið töfinni. Núna finnst mér verða ákveðin kaflaskil með yfirlýsingu Stefans Füle í síðustu viku um að hann telji að hægt verði að opna alla kafla fyrir lok ársins. Í því felast sem áður segir fyrirheit um sjávarútvegskaflann,“ segir Össur Skarphéðinsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert