Góð samstaða náðist í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun um afgreiðslu frumvarps um birtingu upplýsinga um afskriftir í bankakerfinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að birtar verði upplýsingar um afskriftir sem nema 100 milljónum króna eða meiru.
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði á þingfundi nú síðdegis að efni frumvarpsins, sem Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, lagði fram, hefði hlotið góðan hljómgrunn á fundi nefndarinnar í morgun og aðeins einn þingmaður lagst gegn afgreiðslu málsins.
Helgi sagði að frumvarpið væri til þess ætlað að auka gagnsæi í uppgjörinu eftir hrun og hafa opnar upplýsingar um það sem gerst hefði í fjármálakerfinu, bæði til að eyða grunsemdum um að eitthvað misjafnt hefði verið þar á ferðinni en einnig til að auka jafnræði milli þeirra sem afskrifað hefur verið hjá, yfir 100 milljónum. Mikil umfjöllun hefði verið um afskriftir sumra en ekki annarra, en eðlilegast væri að upplýsingarnar væru birtar almenningi.
„Eitt af mikilvægustu verkefnum okkar eftir hrun er að endurreisa traust á fjármálakerfinu," sagði Helgi Hjörvar. Það verði gert mest og bst með því að tryggja að upplýsingar séu aðgengilegar. Hann þakkaði breiða samstöðu úr öllum flokkum fyrir afgreiðslu málsins.