Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir, þingmenn Hreyfingarinnar, boða að þau muni styðja vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni ef ekki verður komið til móts við kröfur flokksins í nokkrum málaflokkum, þar með talið í skuldamálum heimila.
Flokkssystir þeirra, Birgitta Jónsdóttir, gaf ekki kost á viðtali vegna málsins.
Spurður út í skuldamálin í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag, svarar Þór því til, að þau séu „sennilega í meiri ólestri en þau voru strax eftir hrun“. Þegar þreifingar hafi verið um samstarf við ríkisstjórnina milli jóla og nýárs hafi Hreyfingin sett það sem skilyrði að tekið yrði á skuldamálum, ef hún ætti að verja stjórnina vantrausti. Þótt ekki hafi orðið af samstarfi sé þolinmæðin hvað varðar vantrauststillögu þrotin.
Spurðir út í kröfur Hreyfingarinnar svara samfylkingarþingmennirnir Lúðvík Geirsson, Helgi Hjörvar og Björgvin G. Sigurðsson því til að aðgerðir verði kynntar fyrir maílok.