Lögreglan sendi þau skilaboð út í samfélagið að í lagi sé að reykja kannabisefni þegar hún hafði ekki afskipti af fólki sem hópaðist saman á Austurvelli og reykti það sem virtist vera kannabis úr þar til gerðum tækjum. Þetta segja framkvæmdastjórar Vímulausrar æsku og Fræðslu og forvarna.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hélt Rvk Homegrown viðburð á Austurvelli föstudaginn sl., 20. apríl, þar sem vakin var athygli á málstað hópsins en hann berst fyrir lögleyfingu kannabisefna. Lögregla vissi af viðburðinum fyrirfram og hafði spurnir af því að fólk væri hvatt til að þykjast reykja kannabisefni. Lögregla aðhafðist hins vegar ekkert, og gekk ekki úr skugga um að ekki væri verið að reykja kannabisefni.
Hrafndís Tekla Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Vímulausrar æsku, og Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna (FRÆ), eru undrandi á viðbragðaleysi lögreglunnar og telja það afar neikvætt í baráttunni gegn neyslu ungmenna á kannabisefnum og vímuefnum almennt. Í samtali við mbl.is benda þau bæði á að neysla kannabisefna hafi aukist mikið undanfarin ár og það sem verra er, viðhorfið sé að breytast. Unga fólkið geri nú til dæmis greinarmun á hassi og maríjúana, þ.e. grasi, og telji að grasið sé hættulaust.
Bæði segjast Árni og Hrafndís Tekla hafa áhyggjur af þróuninni í kannabismenningunni hér á landi. „Það hefur verið mikil aukning frá vetrinum 2008-2009. Og það sem hefur einnig breyst, er að fótboltastrákarnir og krakkar sem standa sig vel í skóla eru farin að reykja gras en drekka kannski ekki áfengi. Þau telja það ekki slæmt, því þau drekka ekki. Það er því orðið viðhorfið að þetta sé allt í lagi og í raun ekki fíkniefni,“ segir Hrafndís Tekla og bætir við að mörg ný mál komi á borð Vímulausrar æsku í hverri einustu viku.
Myndasyrpa af viðburðinum á Austurvelli var sett inn á afþreyingarvefinn 9gag sem er fjölsóttur af ungu fólki. Í syrpunni kom fram að lögreglubifreið hefði verið ekið framhjá án þess að hún hefði stoppað. Var tekið sérstaklega fram að lögreglan hafi vitað að fram færi kannabisneysla. Færslan var hins vegar fjarlægð eftir umfjöllun mbl.is.
Árni segir að nægur sé áróðurinn sem berjast þurfi við án þess að lögregla leggi kannabisneytendum lið. Um sé að ræða gríðarstóra áróðursmaskínu sem meðal annars noti afþreyingarsíður til að koma á framfæri boðskap sínum til ungs fólks. Hann segir að FRÆ sé í samstarfi við um tuttugu félagasamtök víða um land og verið sé að reyna leiða unga fólkið í allan sannleikann um hætturnar sem fylgja kannabisneyslu.