Grágæsin SLN er enn og aftur mætt á Blönduós eftir vetrardvöl í Skotlandi. Hún var merkt sumarið 2000, þá orðin fullorðin, og má því áætla að hún hafi flogið minnst 26 sinnum yfir hafið.
Frá þessu segir á bloggsíðu Jóns Sigurðssonar, fréttaritara Morgunblaðsins á Blönduósi. Þar segist hann hafa verið orðinn vonlítill um að þessi eftirlætisgæs Blönduósinga skilaði sér í ár því nokkuð sé liðið síðan fyrstu gæsir komu. „Hugsið ykkur, gæsin hefur flogið 26 sinnum yfir hafið og heim og mátt sæta skotárásum bæði á Íslands- og Skotlandsstöndum. Þessi gæs hefur sýnt einstakan hæfileika til að komast af og ef við gerum ráð fyrir því að hún hafi komið upp 5 ungum að meðaltali öll þessi ár þá hafa fylgt henni öll þessi sumur 65 ungar. Þessi eðalgæs hefur haft það fyrir vana að helga sér svæði í nágrenni Héraðshælisins og hafa því eldri borgarar bæjarins haft að henni þokkalegt aðgengi og ég veit að þeir eru flestir elskir að henni.“