Gamla varðskipið Þór III endar brátt ævidaga sína. Skipið var dregið af dráttarbátnum Auðuni frá bryggjunni í Gufunesi og í Njarðvíkurhöfn í gær þar sem það verður rifið niður í brotajárn næstu daga.
Það var Hringrás sem keypti skipið til niðurrifs. Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir að farið verði í það strax í dag að dæla úr skipinu spilliefnum. „Þegar búið verður að tæma það af þeim og taka það út af Heilbrigðiseftirlitinu megum við hefja verkið. Skipið verður flutt ásamt öðru brotajárni frá Hringrás á erlendan markað þar sem það hefur sitt framhaldslíf. Það kemur svo heim til baka í formi gjaldeyris,“ segir Einar.
Þór III er skip sem ber mikla sögu. Það var smíðað fyrir Landhelgisgæsluna 1951 og var 920 tonn, 55,9 m á lengd og 9,5 m á breidd. Þór gegndi veigamiklu hlutverki í þorskastríðum milli Íslands og Bretlands. Skipið var selt Slysavarnafélagi Íslands árið 1982 og notað sem skólaskip fyrir Slysavarnaskóla sjómanna. Það fékk þá nafnið Sæbjörg.