Tekist var á um afgreiðslu utanríkismálanefndar á samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnar ESB um IPA-styrki við upphaf þingfundar í dag. Stjórnarandstaðan sagði að um klækjabrögð væri að ræða en fulltrúi meirihlutans í nefndinni bað sömu þingmenn að láta af morgunfýlu.
Málið var afgreitt út úr utanríkismálanefnd í morgun og tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í nefndinni, málið fyrstur upp við upphaf þingfundar. Hann sagði að hvað eftir annað væri grundvallaratriðum í umsóknarferlinu að Evrópusambandinu haldið frá eða út úr þeim snúið. Nú hafi málið þróast á enn verri veg þar sem stjórnarmeirihlutinn beiti brögðum til að þoka málum áfram.
Sigmundur sagði að IPA-styrkir hefðu ekki verið ræddir sem skyldi og sagði stjórnarliða þagga niður umræðuna um umsóknina að ESB.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í utanríkismálanefnd, sagði það hafa vakið furðu sína þegar hún mætti á fundinn í morgun, að vísu þrettán mínútum of seint. „Þá var verið að greiða atkvæði um hvort taka ætti málið út.“ Hún sagði nefndina ekki hafa verið fullskipaða en alsiða væri að bíða eftir nefndarmönnum sem ekki hafa boðað forföll. Þá hafi á sama tíma meirihlutinn kallað inn tvo varamenn.
Ragnheiður sagðist ekki skilja hvers vegnar svo lá á að taka málið út. Hún svaraði því sjálf, að málið hafi legið inni í nefndinni lengi en formaður hennar vitað að ekki væri meirihluti fyrir málinu þegar utanríkismálanefnd er fullskipuð. Því hafi verið gripið til klækjabragða, varamenn kallaðir til og málið þannig afgreitt.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í nefndinni, sagði fagnaðarefni að málið hafi verið afgreitt út úr nefndinni, enda greiði það fyrir atvinnuskapandi þekkingarverkefnum og gjaldeyrisöflun. Hann bað þingmenn að vera ekki svona morgunfúla og sagði að svo virðist sem ekki megi gera neinar ráðstafanir ef það tengist á einhvern hátt Evrópu. „Vilja þeir kannski hætta viðskiptum við Evrópu, loka landamærum eða segja upp samningum við ríki ESB.“
Helgi sagði að málið hafi verið afgreitt með fullkomlega eðlilegum hætti. Málið hafi verið á dagskrá kl. 8.30 ekki boðað að gestir myndu mæta. Því hafi nefndarmönnum mátt vera ljóst að til stæði að afgreiða málið úr nefndinni á þessum tíma. Ekki hafi verið eftir neinu að bíða og öllum nefndarmönnum mátti vera ljóst að tímanlega ætti að mæta til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom einnig í ræðustól og vildi setja málið í samhengi. Hann nefndi hversu naumt það er hjá meirihlutanum að koma málum sem tengjast ESB í gegn, og hefði verið örlítil breyting á nefndinni í morgun hefði það ekki tekist. Hann velti því fyrir sér hvernig málin standa þá þegar IPA-styrkirnir koma aftur inn í þingið. „Það kann að vera, að nefndarmenn kunna að reka sig á það, að sigurinn er ekki unninn, þó að þeir hafi unnið þennan áfanga í morgun.“