Látin hætta í skóla til að vinna fyrir heimilinu

Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta …
Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta í framhaldsskólum að kröfu foreldra svo þau geti farið á atvinnuleysisbætur mbl.is/Ómar

Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta í fram­halds­skól­um að kröfu for­eldra eða for­ráðamanna til að hægt sé að láta börn­in vinna fyr­ir heim­il­inu eða þiggja at­vinnu­leys­is­bæt­ur og leggja bæt­urn­ar fram til rekstr­ar heim­il­is­ins. Þetta seg­ir skóla­meist­ari Verk­mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri í sam­tali við Ak­ur­eyri viku­blað sem kom út í dag.

Brott­fall meðal nema í fram­halds­skól­um er mun meira hér á landi en í ná­granna­lönd­un­um eða um 30%. Sig­ríður Huld Jóns­dótt­ir, skóla­meist­ari VMA, seg­ir að stór hluti af vanda­mál­um nem­enda hafi ekk­ert með starf skól­anna að gera og það hafi komið henni á óvart þegar hún tók við stjórn­un­ar­stöðu við Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri hve stór hluti nem­enda stríði við vanda­mál.

„Þeir sem hverfa frá námi hætta marg­ir hverj­ir af ástæðum sem eru skól­un­um al­gjör­lega óviðkom­andi. Það hef­ur ekk­ert að gera með náms­getu eða aðbúnað skól­ans, stund­um stöðva veik­indi nám hjá krökk­un­um, bág­ur efna­hag­ur eða van­líðan. Marg­ir hætta vegna þess að þeim líður illa. Sumpart vegna erfiðra fé­lagsaðstæðna, sumpart vegna erfiðra per­sónuaðstæðna. Börn eiga sum hver ekki nógu gott bak­land. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði hér í stjórn­un­inni var hve marg­ir nem­end­ur stríða við gríðarleg per­sónu­leg vanda­mál. Mig hafði ekki órað fyr­ir að van­líðan nem­enda væri mál sem tæki eins mik­inn tíma frá skóla­stjórn­end­um og raun ber vitni,“ seg­ir Sig­ríður Huld í viðtali við Ak­ur­eyri.

„Rosa­lega marg­ir verða að vinna með skól­an­um til þess að hafa efni á hon­um og svo eru þeir líka til sem detta út úr skól­an­um vegna þess að það eru hrein­lega ekki til pen­ing­ar til að stunda nám. Fjöl­skyld­una vant­ar tekj­ur og börn­in eru tek­in út úr skól­an­um annaðhvort til að vera heima á at­vinnu­leys­is­bót­um eða til að vinna og skila tekj­un­um heim.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert