Látin hætta í skóla til að vinna fyrir heimilinu

Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta …
Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta í framhaldsskólum að kröfu foreldra svo þau geti farið á atvinnuleysisbætur mbl.is/Ómar

Dæmi eru um að börn séu þvinguð til að hætta í framhaldsskólum að kröfu foreldra eða forráðamanna til að hægt sé að láta börnin vinna fyrir heimilinu eða þiggja atvinnuleysisbætur og leggja bæturnar fram til rekstrar heimilisins. Þetta segir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri í samtali við Akureyri vikublað sem kom út í dag.

Brottfall meðal nema í framhaldsskólum er mun meira hér á landi en í nágrannalöndunum eða um 30%. Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, segir að stór hluti af vandamálum nemenda hafi ekkert með starf skólanna að gera og það hafi komið henni á óvart þegar hún tók við stjórnunarstöðu við Verkmenntaskólann á Akureyri hve stór hluti nemenda stríði við vandamál.

„Þeir sem hverfa frá námi hætta margir hverjir af ástæðum sem eru skólunum algjörlega óviðkomandi. Það hefur ekkert að gera með námsgetu eða aðbúnað skólans, stundum stöðva veikindi nám hjá krökkunum, bágur efnahagur eða vanlíðan. Margir hætta vegna þess að þeim líður illa. Sumpart vegna erfiðra félagsaðstæðna, sumpart vegna erfiðra persónuaðstæðna. Börn eiga sum hver ekki nógu gott bakland. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði hér í stjórnuninni var hve margir nemendur stríða við gríðarleg persónuleg vandamál. Mig hafði ekki órað fyrir að vanlíðan nemenda væri mál sem tæki eins mikinn tíma frá skólastjórnendum og raun ber vitni,“ segir Sigríður Huld í viðtali við Akureyri.

„Rosalega margir verða að vinna með skólanum til þess að hafa efni á honum og svo eru þeir líka til sem detta út úr skólanum vegna þess að það eru hreinlega ekki til peningar til að stunda nám. Fjölskylduna vantar tekjur og börnin eru tekin út úr skólanum annaðhvort til að vera heima á atvinnuleysisbótum eða til að vinna og skila tekjunum heim.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert