„Fyrir nokkru sótti ég fund á einum fallegasta stað í Evrópu. Þangað kemur fjöldi gesta og þá sérstaklega til myndatöku af sérstæðu náttúrufyrirbæri í einkaeign. Eigandi telur sig eiga ákveðinn rétt og innheimtir nú gjald af þeim sem þarna koma til myndatöku. Hann telur sig einnig eiga að fá hluta af þeim tekjum sem myndasmiðir hafa af birtingu þessara mynda á vef og í öðrum fjölmiðlum. Hann sé jú eigandi fyrirmyndarinnar,“ segir Magnús Oddsson, fv ferðamálastjóri, í grein í Morgunblaðinu í dag
Magnús segir að myndirnar birtast um allan heim og ljósmyndarar fái sumir háar fjárhæðir fyrir þessar myndir og eigi höfundarrétt að þeim.
Í grein sinni segir Magnús m.a.: „Er öllum innlendum og erlendum aðilum heimilt að gera út á íslenska náttúru í atvinnuskyni um alla framtíð, hvort sem er í þjóðareign eða einkaeign, án skilyrða? Sé svarið já og sátt um það þá þarf ekki að velta því meira fyrir sér. Sé svarið á hinn bóginn nei þá þarf sem allra fyrst að móta í samvinnu allra aðila það fyrirkomulag sem á að gilda um þessi afnot. Opið umboð til atvinnureksturs í skjóli almannaréttar gæti kallað á árekstra við landeigendur og þjóðina.“