Markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér um aukinn jöfnuð á Íslandi samkvæmt áætluninni Ísland 2020 má nú heita að hafi verið náð eða verði það innan tíðar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Ísland 2020 felur í sér stefnuyfirlýsingu í nokkrum málum til ársins 2020. Síðastliðið haust var mælanlegum markmiðum stefnunnar komið á myndrænt form og er unnt að skoða framvindu einstakra málaflokka á vef forsætisráðuneytisins.
Samkvæmt tölunum jókst ójöfnuður samkvæmt Gini-stuðli á árunum 2003-2009, en síðan hefur jöfnuður í samfélaginu aukist. Gini-stuðullinn var 23,6 á síðasta ári en var 29,3 árið 2009.
Gini-stuðullinn sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal landsmanna á einkaheimilum. Stuðullinn er 100 ef einn maður er með allar tekjurnar en 0 ef allir hafa jafnar tekjur.