„Við teljum að það sé afar óheppilegt að hafa sama stæðið merkt fyrir fatlaða og konur og við ætlum þess vegna að breyta því,“ segir Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hörpu, en nokkur fjöldi stæða í bílastæðahúsi Hörpu er nú merktur á þann hátt.
„Við ætlum að merkja stæði sérstaklega fyrir fjölskyldufólk með barnavagna,“ segir Höskuldur.
Hann segir að hugmyndin að þessari merkingu hafi komið frá arkitektum hússins, sem höfðu kynnt sér slíkar merkingar í Þýskalandi. „En ég veit ekki hvort það er algengt þar að blanda saman merkingum fyrir fatlaða og kvenfólk. En mér skilst að þar sé sumstaðar algengt að hafa sérstök stæði fyrir konur.“
Höskuldur segir að hingað til hafi fáar athugasemdir borist vegna þessara merkinga.