Ósátt við hækkun stjórnarlauna

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Miðstjórn ASÍ lýsir andstöðu sinni við þá ákvörðun ársfundar Framtakssjóðs Íslands að hækka stjórnarlaun sjóðsins úr 100 þús.kr. á mánuði í 180 þús.kr. Það er skoðun miðstjórnar að þessi ákvörðun sé ekki bara úr takt við þann veruleika sem almennt launafólk býr við, heldur fer hún algerlega gegn þeim markmiðum sem Alþýðusamband Íslands hefur sett um siðferði og samfélagslega ábyrgð í ákvörðunum lífeyrissjóðanna. Þetta kemur fram í ályktun frá miðstjórn ASÍ.

„Í kjölfar hrunsins 2008 hefur mikil umræða átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar um ábyrgð lífeyrissjóðanna gagnvart almennum sjóðsfélögum þegar kemur að ákvörðunum um launakjör stjórnenda þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir fjárfesta í. Ársfundir ASÍ hafa ítrekað ályktað í þá veru að sjóðirnir beiti sér gegn því að ofurlaunakerfið verði tekið upp aftur og er þessi ákvörðun því í andstöðu við þá stefnumörkun.

Miðstjórn ASÍ studdi á sínum tíma stofnun Framtakssjóðs á þeirri forsendu að hann myndi gegna mikilvægu hlutverki í endurreisn atvinnulífsins. Undanfarið hafa einstaka ákvarðanir stjórnar sjóðsins ekki verið í samræmi við væntingar miðstjórnar ASÍ um ný og breytt vinnubrögð til að endurheimta traust almenns launafólks.

 Miðstjórn ASÍ hvetur fulltrúa launafólks í stjórnum þeirra lífeyrissjóða sem starfa á grundvelli kjarasamnings ASÍ og SA að krefjast þess að þessi ákvörðun um stjórnarlaun verði afturköluð og jafnframt að sett verði fram skýr hluthafastefna af hálfu Framtakssjóðsins varðandi aðkomu hans að ákvörðunum um laun stjórna og stjórnenda þeirra fyrirtækja sem fjárfest verður í. Aðeins þannig verður hægt að skapa nauðsynlega ró um starfsemi þessa mikilvæga sjóðs og leggja grunn að því að skapa traust og trúverðugleika launafólks og sjóðsfélaga gagnvart starfsemi lífeyrissjóðanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert