„Þetta var sláandi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem tók þátt í 40 þúsund manna fjöldasöng í rigningu og sudda á Youngstorgi í Ósló í dag. „Þetta var mjög eftirminnileg stund fyrir okkur sem vorum þarna. Maður gleymir þessu ekki.“
Katrín segir athöfnina hafa verið mjög fallega. Fyrst voru haldnar tvær stuttar ræður og því næst hófst söngurinn en sungið var lagið Börn regnbogans (n. Barn av regnbuen) sem Anders Behring Breivik þolir ekki og álítur áróður fyrir marxisma.
Norski þjóðlagasöngvarinn Lillebjørn Nilsen, sem gerði lagið frægt á sínum tíma, leiddi sönginn en um er að ræða norska útgáfu af „My Rainbow Race“ eftir bandaríska þjóðlagasöngvarann Pete Seeger. „Norska útgáfan er vinsælasta leikskólalag Norðmanna og hún er óskaplega falleg. Þetta var mjög sérstakt, þarna söng fólk saman og hélt á rósum og var með regnhlífar. Það var mikill andi samstöðu, það var það sem þetta gekk út á, að sýna að þessi gjörningur síðasta sumar sundraði ekki þjóðfélaginu heldur sameinaði það,“ segir Katrín.
Lagið var sungið þó nokkrum sinnum, einnig þegar fólk gekk framhjá dómshúsinu þar sem réttað var yfir Breivik, og lagði rósir við öryggistálma umhverfis bygginguna til að minnast þeirra sem létust af hans völdum þann 22. júlí í fyrra. „Við sungum þetta lengi og ég er eiginlega búin að læra þennan söng utan að núna. Hann er fyrst og fremst um að þetta sé ein jarðarkúla og þar eigi öll börn rétt á að lifa í friði og spekt.“
Katrín segir að þar til í dag hafi hún aldrei heyrt lagið en það sé fyrir Norðmönnum eins og „Allir krakkar“ er fyrir Íslendingum. „Þetta er eitthvað sem greinilega allir kunna og fólk tók undir hárri raustu. Það var einn forsöngvari og hann söng ekki einu sinni allan tímann því fólk hélt uppi söngnum alveg sjálft. Svo voru síðustu tvö erindin sungin aftur og aftur. Það voru rigning og tár saman.“