Útlit er fyrir góða grassprettu í sumar, en þurrkar gætu þó valdið talsverðum skaða, að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra.
Mörg undanfarin ár hefur Páll spáð fyrir um gróðursældina á komandi sumri og sprettu á túnum landsins og nú í sumar spáir hann góðri sprettu. Vetrarhitinn skiptir miklu máli fyrir gróðurinn.
Páll hefur sýnt fram á að fylgni hefur verið á milli vetrarhita og heyfengs sumarsins en spá hans byggist á meðalhita yfir sjö mánaða tímabil í Stykkishólmi, þ.e.a.s. frá október til apríl. Hitafar þar er líkt því sem er að meðaltali á landinu.
„Jörðin er svo vel geymd, frostið hefur ekki skemmt ræturnar. Ég held að það sé skýringin á þessu,“ segir hann í umfjöllun um gróðurspána fyrir sumarið í Morgunblaðinu í dag.