„Þetta er mikilvægt skref til þess að tryggja það að gripið verði áhrifaríkra refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum. Koma verður skikki á bæði löndin fyrir ósjálfbærar veiðar þeirra og þeim gert að skilja að slík framganga verði ekki liðin af alþjóða sjávarútvegssamfélaginu,“ segir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra útgerðarmanna, í samtali við fréttavefinn Fishupdate.com um makríldeiluna.
Fram kemur í fréttinni að forystumenn útgerðarmanna í Skotlandi og á Írlandi hafi fagnað samþykkt sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins fyrr í vikunni á frumvarpi að reglugerð þar sem gert er ráð fyrir að Evrópusambandið fái heimildir til þess að beita ríki utan sambandsins refsiaðgerðum sem stundi ósjálfbærar fiskveiðar.
Haft er einnig eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra Samtaka skoskra uppsjávarútgerða, að hann fagni samþykkt sjávarútvegsnefndarinnar og leggur ennfremur áherslu á að ríkisstjórnir allra ríkja ESB verði að veita því fullan stuðning sinn að hægt verði að grípa til slíkra refsiaðgerða.