Vill halda í íslensku krónuna

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Framsóknarflokkurinn er sá flokkur í dag sem mun harðast berjast gegn aðild að Evrópusambandinu,“ sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í kvöld í umræðum um utanríkismál. Sagði hann stefnu flokksins andsnúna því að sækja um aðild að ESB og að sú stefna hefði ítrekað verið staðfest.

„Það er í raun sorglegt að hugsa til þess að það hafi tekist að selja umsóknina og umsóknarferlið sem einhvers konar lottóvinning. Að kíkja í pakkann, sjáum hvað við fáum. Eins og að upp úr hattinum verði dregin einhvers konar töfrakanína sem að leysir allan vanda Íslands,“ sagði Höskuldur.

Hann sagði í raun hlálegt að lesa upp úr skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um utanríkismál sem hann kynnti fyrr í dag þar sem fullyrt væri að í aðild að sambandinu fælust margvísleg tækifæri sem mikilvægt væri að horfa til. Það væru hins vegar engin rök færð fyrir því. Sama væri að segja um fullyrðingar um að byggðastefna ESB skapaði fjölmörg tækifæri fyrir landsbyggðina.

„Það er sagt að Evrópuviðræðurnar séu vel á veg komnar. Ég held að það sé rangt vegna þess að það á eftir að semja um langstærstu málin,“ sagði Höskuldur og nefndi fyrst og fremst sjávarútveginn í því sambandi. „Ég get sagt það bara mjög skýrt að ég vil ekki semja um sjávarútveg Íslendinga. Ég vil ekki að aðrar þjóðir hafi heimild til að veiða hér fiskinn í sjónum og ég tel enga hagsmuni geta komið í staðinn fyrir þessa mikilvægu auðlind landsins.“

Höskuldur rifjaði ennfremur upp að fyrir nokkrum árum hefðu þingmenn Samfylkingarinnar lagt áherslu á að byggja upp bankakerfið hér á landi og taka evru upp sem gjaldmiðil Íslands sem aftur myndi leysa allan vanda þjóðarinnar.

„Ég hef aldrei áður haft eins sterka skoðun á því að Íslendingar eigi að halda í íslensku krónuna,“ sagði hann og vísaði á bug fullyrðingum um að Íslendingar gætu ekki haldið úti eigin gjaldmiðli vegna agaleysis. Svíar hefðu til að mynda búið við sama ástand fyrir tveimur áratugum en í dag væri engin umræða um það þar í landi að taka ætti upp evru í stað sænsku krónunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert