Grunur vaknaði í vikunni um að spillt hefði verið fyrir varpi hafarnarhjóna í eyju á sunnanverðum Breiðafirði, því ekki sást lengur til parsins sem vikurnar á undan hafði undirbúið varp og byggt hreiður.
Sést hefur til arnanna á þessu svæði undanfarin tvö ár og var fylgst með þeim frá landi frá því þeir sáust fyrst í vor, segir á vef Náttúrustofu Vesturlands.
„Í gær fóru fulltrúar Náttúrustofu Vesturlands og Fuglaverndar í eyjuna til að skoða verksummerki og var aðkoman ófögur. Sýnilegar skemmdir höfðu verið unnar á hreiðrinu með því að róta í því og kasta hluta hreiðurefnanna fram af klettum niður í fjöru. Skemmdirnar eru tvímælalaust af mannavöldum. Ekki er vitað hvort örninn var orpinn þegar þetta átti sér stað en ef svo er, þá voru eggin horfin,“ segir á vef Náttúrstofu Vesturlands.
Þar kemur fram að um lögbrot sé að ræða og hefur málið verið kært til lögreglu. Náttúrustofa Vesturlands og Fuglavernd líta málið mjög alvarlegum augum, enda hefur örninn verið strangfriðaður í tæpa öld, og hvetja alla sem upplýsingar gætu haft um málið að koma þeim á framfæri við lögregluna.