Í dag kynnti borgarritari, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, nýja tillögu að skipuriti fyrir Ráðhús Reykjavíkur í borgarráði. Talsverðar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi Ráðhússins og eru þær gerðar með það að markmiði að einfalda og efla miðlæga stjórnsýslu, sameina skrifstofur og ná fram hagræðingu og bæta þjónustu við borgarbúa enn frekar.
Mikið hefur verið skorið niður í miðlægri stjórnsýslu á undanförnum árum og munu breytingarnar nú skila enn frekari hagræðingu í rekstri Reykjavíkurborgar.
Verkefni innkaupaskrifstofu færast yfir til fjármálaskrifstofu og þau verkefni mannauðsskrifstofu sem varða umsjón og eftirlit með framkvæmd og útfærslu kjarasamninga auk launabókhalds. Embætti borgarhagfræðings verður einnig lagt niður í núverandi mynd.
Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara mun hafa yfirumsjón með stjórnsýslunni ásamt upplýsingamálum, almannatengslum og alþjóðamálum. Hún ber einnig ábyrgð á verkefnum núverandi borgarhagfræðings ásamt tölfræðilegum upplýsingum og könnunum. Þá mun hluti mannauðsskrifstofu sem ekki er kjaratengdur heyra undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Fjármálaskrifstofa annast áfram þau verkefni sem nú falla undir hana. Að auki bætast verkefni innkaupaskrifstofu og kjaramálin við sem mannauðsskrifstofa hefur haft umsjón með.
Skrifstofa þjónustu og reksturs mun annast samræmingu á þjónustu borgarinnar. Hún sinnir þjónustu í framlínu borgarinnar, rafrænni þjónustu, símaveri og þjónustuveri, skjalavörslu og upplýsingatæknimálum borgarinnar. Skrifstofan annast einnig rekstur Ráðhúss, Höfðatorgs og Höfða. Mannréttindaskrifstofa starfar með mannréttindaráði og verður starfsemi skrifstofunnar óbreytt.
Reiknað er með að breytingarnar taki gildi í haust en þær eru háðar samþykki borgarráðs og borgarstjórnar.