„Fram er komið stjórnarfrumvarp á Alþingi um RÚV sem er langt að efni en rýrt að innihaldi. Verði frumvarpið að lögum mun staða RÚV batna á markaðnum á kostnað einkarekinna miðla. Best væri að leggja það til hliðar. Áhugaverðasti kafli frumvarpsins er athugasemdir fjármálaráðuneytisins sem eru veigamiklar", segir Friðrik Friðriksson, hagfræðingur og frkvstj. Skjásins í grein í Morgunblaðinu í dag.
Friðrik segir að í athugasemdum ráðuneytisins komi fram sterk gagnrýni á frumvarp samstarfsflokksins um veigamikil atriði. Þetta eru tíðindi að mínu mati. Bent er á að útvarpsgjaldið sé ekki nefskattur í raun enda greiddu aðeins 68% framteljenda fyrir RÚV árið 2011, 32% gerðu það ekki og horfðu frítt.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Friðrik: „Almennt má segja að í grunninn séu menntamálaráðuneytið og RÚV að krefjast 700 milljóna króna hækkunar úr ríkissjóði á ári, með því að fá til sín ígildi útvarpsgjaldsins í heild sinni fyrir árið 2012 án þess að missa auglýsingatekjur".