Í ársreikningi lífeyrissjóðsins Gildis er í fyrsta sinn gerð grein fyrir stjórnmálaáhættu. Stjórn sjóðsins telur ástæðu til að vekja athygli á að breytingar á lögum og regluverki í kringum sjóðina geta haft áhrif á afkomu þeirra.
„Íslenskir lífeyrissjóðir búa í dag við nokkra stjórnmálaáhættu og áhættu af breytingum á lögum og regluverki. Undanfarin ár hefur lagaumhverfi lífeyrissjóðanna verið nokkuð stöðugt, en það hefur breyst á síðustu misserum og í ljósi umfjöllunar um sjóðina á vettvangi stjórnmálanna gætu fleiri breytingar verið í farvatninu. Stjórn sjóðsins telur ástæðu til að vekja athygli á að breytingar á lögum og regluverki í kringum sjóðina geta haft áhrif á afkomu þeirra,“ segir í ársskýrslunni.
Sem dæmi um breytingar er bent á að lög um gjaldeyrishöft breyttu verulega möguleikum sjóðanna til fjárfestinga og áhættudreifingar. Ekkert liggur fyrir um hvenær lögunum verði breytt. Þá var með lögum lagður sérstakur skattur á lífeyrissjóði. Til stendur að afnema hann að hluta eða öllu leyti háð því hvernig sjóðir taka þátt í sérstökum útboðum á eignum í íslenskum krónum fyrir erlendan gjaldeyri, en niðurstaða þessa er enn nokkuð óljós.