Héraðsdómur Reykjavíkur aflétti í dag frystingu á ríflega 100 milljónum króna á bankareikningi í MP banka sem embætti sérstaks saksóknara telur vera hagnað AK-fasteigna ehf. af meintu lögbroti vegna sölu á fasteign við Skúlagötu til kínverska sendiráðsins.
Málið snýst um fasteign sem seld var kínverska sendiráðinu en Aron Karlsson, eigandi AK-fasteigna ehf., var ákærður ásamt félaginu af Sérstökum saksóknara í síðustu viku fyrir að hafa hlunnfarið lánastofnanir um áðurnefnda upphæð sem áttu veð í fasteigninni.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að rannsókn málsins hefði dregist úr hófi en tvö ár og þrír mánuðir liðu frá því að rannsókn þess hófst upphaflega hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og þar til ákæra var gefin út á dögunum. Þá hafi ekki verið veittar haldbærar skýringar á töfunum.
Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins og ennfremur að embætti sérstaks saksóknara hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar. Embættinu var gert að greiða AK-fasteignum 250 þúsund krónur í málskostnað.