Lögbannsbeiðni hafnað

Sýslumaður úrskurðar um lögbannskröfur
Sýslumaður úrskurðar um lögbannskröfur mbl.is/Ómar

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur hafnað lögbannsbeiðni Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og talsmanns neytenda (TN) þar sem farið er fram á að stöðvuð verði öll innheimta greiðsluseðla áður gengistryggðra lána. Lögbannsbeiðnin beinist að Landsbankanum en myndi vera fordæmisgefandi fyrir aðrar lánastofnanir. 

Í úrskurði sýslumanns er kröfu um lögbann hafnað á þeirri forsendu að ekki sé nægilega skýrt afmarkað til hvaða skuldabréfa lögbannsbeiðnin tekur, þ.e.  ekki sé nægilega skýrt við hvaða gengistryggðu lán sé átt.  Einnig telur sýslumaður að ekki hafi verið sýnt nægilega fram á að innheimta greiðsluseðla ólögmætra gengistryggðra lána hafi ótvíræðar afleiðingar fyrir neytendur.

„Í úrskurðinum kemur hins vegar fram að Hagsmunasamtök heimilanna og talsmaður neytenda hafi  á grundvelli laga nr. 141/2001 (um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda) fullt umboð til þess að leggja fram lögbannsmál af þessu tagi hér á landi og gagnvart innlendum aðilum.

HH og TN munu ekki una þessum úrskurði og verður ný lögbannskrafa lögð fram strax eftir helgi með afmarkaðri hætti og frekari rökstuðningi varðandi þau atriði sem sýslumanni þótt á vanta og byggði frávísun sína á,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka