Ráðgjafahópur skipaður um sæstreng

Sæstrengir tengdir Íslandi.
Sæstrengir tengdir Íslandi. mbl.is

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt tillaga Oddnýjar G Harðardóttur, iðnaðar- og fjármálaráðherra, þess efnis að skipaður verður ráðgjafarhópur til að kanna nánar þann möguleika að leggja sæstreng á milli Íslands og meginlands Evrópu.

Í ráðgjafarhópnum munu m.a. eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar frá helstu hagsmunaaðilum. Ráðgjafarhópnum verður falið að skila greinargerð fyrir lok þessa árs.

„Ljóst er að mikillar greiningarvinnu er þörf; m.a. á samfélags- og þjóðhagslegum áhrifum, tæknilegum atriðum og greining á lagaumhverfi og milliríkjasamningum. Sérstök verkefnisstjórn sem skipuð verður fulltrúum stjórnvalda mun starfa samhliða ráðgjafarhópnum,“ segir í fréttatilkynningu.

Í skýrslu um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland er sett fram það markmið að „einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin með lagningu sæstrengs“.

Undanfarin ár hefur Landsvirkjun unnið greiningarvinnu við að skoða þann möguleika að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi meginlands Evrópu í gegnum sæstreng.

„Slík framkvæmd hefur um nokkurt skeið verið talin tæknilega möguleg en fyrst nú eru komnar fram jákvæðar vísbendingar um hagkvæmni verkefnisins. Ýmsar forsendur þarf að staðfesta áður en unnt er að fullyrða endanlega um hagkvæmni verkefnisins og ljóst er að breið samfélagsleg sátt er nauðsynleg eigi verkefnið að verða að veruleika,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert