Húsafriðunarnefnd hefur samþykkt að senda tillögu að friðun Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfis til mennta og menningarmálaráðherra til ákvörðunar. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar fyrr í mánuðinum.
Í greinargerð með tillögunni segir að Skálholt sé tvímælalaust meðal merkustu staða á Íslandi með hliðsjón af menningarsögu þjóðarinnar. Auk sögulegra minja sé þar tvær af vönduðustu byggingum 20. aldar á Íslandi sem hafi mikið gildi í byggingarlistasögu okkar.
Þar er átt við annars vegar Skálholtskirkju og hins vegar Skálholtsskóla. „Skálholtskirkja er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi. Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitektarnir fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.“
Þá segir, að vegna þess hárfína jafnvægis sem skapast hafi í Skálholti og myndi eitt fegursta manngerða umhverfi nútíma byggingarlistar á landinu, beri að fara mjög varlega í allar breytingar og íhuga gaumgæfilega hvaða áhrif þær hafa á grenndina.
Húsafriðunarnefnd leggur til að friðunin taki til innra- og ytra byrðis Skálholtskirkju og ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis. Þá segir: „[A]ð undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.“