Íslensk hjón sem leigðu út hús sitt á Suðurnesjum sjá fram á gjaldþrot eftir að leigjendurnir hættu að greiða og lögðu húsið í rúst. Fyrir utan allar skemmdirnar er ljóst að leigjendurnir starfræktu að auki kannabisræktun í bílskúrnum. Skemmdirnar eru metnar á 1,2 milljónir króna auk 440 þúsund króna í vangreidda leigu.
Hjónin eru búsett í Noregi en leigðu húsið út frá því þau fluttu þangað. Þegar leigugreiðslur fóru að berast illa - á endanum ekki - riftu þau leigusamningnum. Hjónin komu til landsins í vikunni í þeim tilgangi að koma húsnæðinu aftur í leigu.
Konan rekur reynslusögu þeirra hjóna á samfélagsvefnum Facebook. „Ég komst inn í ganginn, gat kíkt inn í stofu og geymsluna undir stiganum, þá bara varð ég að komast út því lyktin var mér um megn og eyðileggingin algjör, ég stóð bara úti á plani og grét.“
Hún segir að á gólfinu hafi mátt finna hundaskít og myglaðan mat í ofninum. Öll gólfefni séu ónýt og flestar hurðir í húsinu. Þá voru í garðinum dýnur úr hjónarúmi og brotin húsgögn sem kastað hafði verið fram af svölunum.
Þegar hjónin svo gengu inn í bílskúrinn fundu þau þar þurrkuð laufblöð. Kom upp úr krafsinu að þar hafði verið starfrækt kannabisræktun.
Hjónin kærðu leigjendurna til lögreglu fyrir eignaspjöll, en lögreglan staðfesti einnig að um kannabisræktun hefði verið að ræða. „Vanvirðingin við okkur, eigur okkar og nágrannana í götunni er algjörlega skelfileg og ófyrirgefanleg.“
Þá segir í grein konunnar, að ekki sé hægt að finna lausn á málum hjónanna hjá viðskiptabanka þeirra þar sem ljóst sé að húsið fari ekki í útleigu án kostnaðarsamra lagfæringa. Því sé útlit fyrir að þau fari í gjaldþrot. „Gjaldþrot er ekkert skelfilegt sem slíkt, heldur að leigjendur geta lagt húnæði í rúst og verið svo bara stikkfrí og sagt svo bara ó obossí er þetta ónýtt, æji skiptir ekki máli þá leigi ég bara nýtt!“