Mun eiga gott samstarf við næsta forseta

Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á góðri stund.
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy á góðri stund. Reuters

Þýsk stjórnvöld munu koma á traustu samstarfi við næsta forseta Frakklands hver sem hann verður að loknum forsetakosningunum þar í landi 6. maí næstkomandi. Þetta er haft eftir talsmanni Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á fréttavefnum Thelocal.fr. í dag.

Merkel hefur átt í nánu samstarfi við forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, undanfarin ár og þá ekki síst í viðbrögðum við efnahagskrísunni á evrusvæðinu. Hins vegar benda skoðanakannanir til þess að frambjóðandi sósíalista, Francois Hollande, muni bera sigur úr býtum í kosningunum og verða næsti forseti landsins.

„Hver sem hann verður þá munu ríkisstjórnin og kanslarinn eiga gott og traust samstarf við hann. Það er eðli hins sérstaka sambandsins og vináttu á milli Þýskalands og Frakklands,“ sagði talsmaðurinn, Steffen Seibert.

Ríkisstjórn Merkel hefur til þessa opinberlega stutt Sarkozy í kosningabaráttunni og hefur ennfremur staðið í deilum við Hollande um nýjan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins um nánari samruna í efnahagsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka