Innanríkisráðuneytið veit ekki til þess að í nokkrum öðrum vestrænum löndum þurfi sambærilega heimild og hér á landi til þess að hefja ökunám. Í reglugerð sem tók gildi í febrúar síðastliðnum var það gert að kröfu að sýslumaður veiti heimildi til ökunáms. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn þingmanns Framsóknarflokks.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði innanríkisráðherra út í málið. Meðal annar krafðist hann svars um hvaða ákvæði það væri í umferðarlögum sem styddi þá reglu að að til þess að hefja ökunám þurfi heimild frá sýslumanni.
Í svari Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, segir að ráðherra sé heimilt að að setja reglur um ökunám og ökukennslu, m.a. um kröfur sem uppfylla þarf til að öðlast ökuleyfi. Reglum hafi verið breytt þar sem kvartanir höfðu ítrekað borist ráðuneytinu um að ökunemi hafði staðist ökupróf en ekki uppfyllt skilyrði til að öðlast ökuleyfi.„Oftast byggðist það á því að búsetuskilyrði eða læknisfræðilegar ástæður leiddu til þess að viðkomandi uppfyllti ekki kröfur sem settar eru til að öðlast ökuleyfi. Því var ákveðið að kanna þessi atriði áður en viðkomandi hæfi ökunám í stað þess að gera það eftir að ökunámi væri lokið,“ segir í svari ráðherra.
Ráðherrann var einnig spurður um hvort hægt væri að finna íslenska hliðstæðu, þ.e. að leyfi sýslumanns þurfi til að hefja nám í einhverri annarri grein. Um það segir í svari ráðherra, að ekki sé hægt að líkja ökunámi við annað hliðstætt nám, flóknar reglur gildi um heilbrigðis- og búsetukröfur í reglugerð um ökuskírteini, sem ekki sé hægt að ætlast til að sá sem hyggur á ökunám hafi vitneskju um. „Til grundvallar því að sýslumaður gefi út námsheimild liggja sanngirnissjónarmið, þ.e. að ekki sé farið út í dýrt ökunám og síðan komi í ljós að viðkomandi geti ekki öðlast ökuleyfi vegna krafna á grundvelli heilbrigðis eða búsetu.“
Að endingu er ráðherra spurður hvort hægt sé að finna hliðstæðar reglur í öðrum löndum. Í svarinu er áréttað að reglurnar hafi verið settar eftir ítrekaðar kvartanir og tekið skýrt fram að ekki hafi verið yfir þeim kvartað. Ekki sé hins vegar vitað um fyrirkomulag í öðrum vestrænum löndum.