„Framsóknarflokkurinn var stofnaður í krafti þeirrar vissu að íslensku þjóðinni væru allir vegir færir og það á jafn vel við í dag. Aðrir geta haldið áfram að velta sér upp úr fortíðinni og jafnvel reynt að gera lítið úr íslensku samfélagi. En við ætlum að horfa til framtíðar með kjark og trú á eigin mátt og bjarta framtíð Íslands að vopni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í ávarpi sínu á miðstjórnarfundi flokksins sem nú stendur yfir.
Sigmundur fór vítt og breitt yfir stjórnmálasviðið og þjóðfélagsmálin í ræðu sinni og var meðal annars tíðrætt um nauðsyn þess að forðast alla öfga en nálgast þess í stað þau mál sem leysa þyrftu úr með skynsemi og raunsæi. Þar kæmi Framsóknarflokkurinn sterkur inn. „Það er hlutverk okkar að vera kletturinn í hafinu. Viti skynsemi og rökhyggju í ólgusjó hugmyndafræðilegra öfga. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að öfgarnar sem við þurfum að berjast gegn verða ekki réttlættar á þann hátt að það þurfi meiri öfgar.“
Stjórnvöld alið á sundrungu í samfélaginu
Sigmundur skaut föstum skotum á ríkisstjórnina og sagði Íslendinga búa við stjórnvöld sem í öllu hafi tekist að setja fram „öfuga hvata og ala stöðugt á sundrung í samfélaginu, ýta undir tortryggni og vega að undirstöðum velferðar í landinu. Stjórnvöld sem á sama tíma bæta í orðræðuna innantómum frösum um samráð, traust og velferð. Það er sérstakt áhyggjuefni hvernig stjórnvöld og hjálparkokkar þeirra leitast við að deila og drottna, skipta þjóðinni niður í stríðandi fylkingar sem svo er drottnað yfir.“
Hann sagði forsætisráðherra hafa uppnefnt þá sem störfuðu í sjávarútvegi og notað um þá orðbragð sem helst minnti á málflutning íslenskra kommúnista á millistríðsárunum. Þá hafi bændur þurft að sæta „ótrúlegum árásum, útúrsnúningum og rangfærslum.“ Íslenskur iðnaður væri flokkaður sem óhrein grein og stundum mætti halda að atvinnurekstur væri almennt vafasöm iðja. Langt væri ennfremur síðan íslensku vinstriflokkarnir gleymdu verkamönnum og -konum. „Slík störf virðast vera orðin of gamaldags fyrir hina nýju vinstriflokka.“
Viðbrögðin við hruninu verri en hrunið
Þá sagði Sigmundur að stjórnvöldum hefði mistekist að koma efnahagslífi landsins aftur í gang og bæta hag fjölskyldna og fyrirtækja. Viðbrögð þeirra við efnahagshruninu væru orðin verri en efnahagshrunið sjálft. Það væri hins vegar ekki of seint að snúa þeirri þróun til betri vegar. Á Íslandi væri allt til staðar sem þyrfti til þess ef tekin væri upp skynsamleg stefna í stjórnmálum.
„Tækifærin eru óteljandi, bæði stór og smá, og auðlindir landsins eru svo miklar að enginn Íslendingur á að þurfa að líða skort. Hið stórkostlega land okkar býr yfir nægum gæðum fyrir okkur öll. Við þurfum bara að grípa tækifærin, nýta auðlindirnar skynsamlega og tryggja að allir þegnar samfélagsins fái að njóta afrakstursins,“ sagði Sigmundur.