„Í hnotskurn var atburðarásin þannig að það var ekki gefinn neinn tími til að ræða málið heldur var farið beint í atkvæðagreiðslu um að það yrði tekið úr nefndinni,“ segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varamaður Gunnars Braga Sveinssonar í utanríkismálanefnd, um atburðarásina þegar IPA-styrkir voru afgreiddir úr nefndinni og til umsagnar þingsins með hraði í fyrradag.
Að sögn Sigurgeirs Sindra tóku samfylkingarþingmennirnir Lúðvík Geirsson og Róbert Marshall sæti fyrir flokksbræður sína Árna Pál Árnason og Mörð Árnason sem voru erlendis vegna starfa sinna.
Með því að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var fjarverandi þar til skömmu eftir atkvæðagreiðsluna hafi helsti andstæðingur styrkjanna úr röðum stjórnarþingmanna í nefndinni ekki getað hreyft andmælum þegar kosið var um þá.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi mætt á fundinn eftir atkvæðagreiðsluna en fundurinn hófst kl. hálfníu að morgni fimmtudagsins og því á þeim tíma þegar sumir þingmenn voru enn að koma börnum sínum í skólann, að sögn Sigurgeirs Sindra. Flokkssystir Bjarna, Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður, var hins vegar viðstödd atkvæðagreiðsluna.
Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, Samfylkingu, og flokksbræður hans, Róbert og Lúðvík, hafi sætt lagi og knúið hið eldfima mál í gegn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, og Ragnheiður Elín hafi óskað eftir umræðu um styrkina og að kosið yrði um þá síðar, að fleiri nefndarmönnum viðstöddum, en Árni Þór hafnað því.
Sigurgeir Sindri fordæmir þessi vinnubrögð. „Það voru kvaddir til tveir samfylkingarmenn úr nálægum herbergjum sem réttu upp hönd og yfirgáfu svo fundinn,“ segir Sigurgeir Sindri og á við þá Lúðvík og Róbert. „Þetta eru fáránleg vinnubrögð. Brögðum var beitt til að ná mjög umdeildu máli í gegn. Það er til skammar. Þessi klækjabrögð sýna stöðu ESB-umsóknarinnar. Það er varla hægt að ræða um að það sé meirihluti í nefndinni fyrir henni.“
Jón Bjarnason, þingmaður VG, er afar ósáttur við afgreiðslu nefndarinnar og segir framkomu Árna Þórs við Guðfríði Lilju hafa verið „ruddalega“. „Þetta hlýtur að verða litið mjög alvarlegum augum af flokksfélögum formanns nefndarinnar, Árna Þórs Sigurðssonar. Það liggja fyrir samþykktir af hálfu VG, bæði á flokksráðsfundum og landsfundum, um að alls ekki skuli tekið við aðlögunarstyrkjum. Þessi afgreiðsla stríðir því gegn stefnu VG.“
Fundargerðir nefndarinnar eru birtar á vef Alþingis og svaraði annar ritara hennar, Stígur Stefánsson, því til að nefndin þyrfti að samþykkja fundargerðina frá fimmtudeginum áður en hún færi á vefinn.
IPA-styrkjum er lýst svo í nýrri skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál:
„Verkefni sem skrifstofa landstengiliðs IPA hefur með höndum og varðar undirbúning IPA-verkefna og umsýslu þeirra. Verkefnið er þríþætt. Í fyrsta lagi, stuðningur við stofnanir, sem hyggjast nýta sér styrkjakerfi ESB í umsóknarferlinu. Í öðru lagi, undirbúningur að nýtingu stoðkerfissjóða, verði af aðild. Í þriðja lagi, stuðningur við stjórnsýsluna, sem lýtur að umsýslu IPA-styrkja í aðildarferlinu, s.s. miðlun upplýsinga um IPA, samræmingu í beitingu styrkjanna og eftirlit með framvindu IPA-verkefna.“ Styrkirnir eru skattfrjálsir og verða um 2 milljarðar kr. í fyrstu lotu.