„Ég tel að það verði að endurskoða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. ESB glímir nú við sína mestu kreppu síðan í síðari heimsstyrjöld og margt hefur gerst í samskiptum ESB og Íslands síðan umsóknin var illu heilli lögð fram, nú síðast alvarlegar hótanir út af makríl að ógleymdri aðild að málsókn vegna Icesave.“
Þetta segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, í Morgunblaðinu í dag. „Mér finnst því rétt og skylt að þjóðin fái að segja álit sitt hið allra fyrsta. Hitt er í mínum huga ekki valkostur. Það er vel hægt að taka upplýsta ákvörðun um aðild á grundvelli þess sem við þegar vitum,“ bætir hún við.
Utanríkismálanefnd vísaði IPA-styrkjum frá ESB til afgreiðslu þingsins í fyrradag og fordæmir Jón Bjarnason, flokksbróðir Guðfríðar Lilju, að hún skyldi ekki höfð með í ráðum. Framkoma Árna Þórs Sigurðssonar, formanns nefndarinnar, í hennar garð hafi verið „ruddaleg“.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Evrópustofa undirbúi nú ESB-hátíð á Íslandi í maí.