Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að gera eigi hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Þeim verði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kom fram í umræðuþættinum Silfri Egils á RÚV þar sem Bjarni var gestur.
Meðal þess sem kom fram í máli Bjarna var, að ástandið sé í raun fáránlegt. Hingað til lands komi sendimenn frá löndum Evrópusambandsins og fundi meðal annars með utanríkismálanefnd þingsins. „Við sitjum við borðið og það kemur skýrt fram að það er einn flokkur sem er heilshugar að baki þessu. Menn spyrja því: „Af hverju eruð þið að þessu?“,“ sagði Bjarni.
Hann telur farsælast að gera hlé á viðræðunum. Verði þeim haldið áfram í framtíðinni verði það á grundvelli breiðrar samstöðu og eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.