Skipulagsdagar í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur tvöfaldast á umliðnum fimm árum. Nú síðast samþykkti borgarráð í lok mars að fjölga þeim úr fimm í sex. Í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins er bent á að foreldrar þurfi yfirleitt að nýta orlofsrétt sinn á þessum dögum og nemur dagafjöldinn fjórðungi lágmarksorlofs.
Í pistlinum segir að það veki furðu að borgaryfirvöld skuli ætlast til þess að foreldrar leikskólabarna verji fjórðungi sumarorlofs síns svo starfsmenn leikskóla borgarinnar geti rætt skipulag á eigin starfsemi.
„Þess utan afmarka borgaryfirvöld þann tíma sem foreldrar leikskólabarna taka afganginn af sumarorlofi sínu með skipulögðum, allt að fjögurra vikna, lokunum leikskóla yfir sumartímann. Þetta kemur sér einnig verr við starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem hafa yfirleitt styttra orlof en starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum.“
Samtökin spyrja hver sé ávinningurinn af þessum starfsdögum og hvernig hafi tekist tekist varðandi umönnun barnanna áður en skipulagsdagar voru teknir upp.
Á það er bent að í venjulegum fyrirtækjum og stofnunum gerist það ekki að starfseminni sé lokað í sex daga á ári til að ræða ný hugtök, samstarf við viðskiptamenn og umbætur. Það sé í mesta lagi gert einu sinni á ári, á sérstökum stefnumótunardegi, en alla jafna er litið á þróun starfseminnar sem viðvarandi viðfangsefni og hluta af almennri vinnu innan fyrirtækisins.
„Niðurfelling þessarar opinberu þjónustu með þeim hætti sem gert er hér á landi þekkist tæpast í nágrannalöndunum. Í Noregi og Danmörku eru dæmi um lokanir fyrir þjónustu á starfsdögum, en eftir því sem næst verður komist er foreldrum þar yfirleitt boðið upp á aðra dagvistun í staðinn.“
Þá segir að enn frekari fjölgun skipulagsdaga bitni illa á foreldrum og fyrirtækjum. Endurskoða þurfi þessi vinnubrögð og leggja meiri áherslu á þjónustu við foreldra og atvinnulíf.